top of page

Samsetning 

Samsetning listaverks skiptir miklu máli. Samsetning eða gerð listaverksins snýst um það hvernig listaverkið er sett saman, uppbyggingu þess, flæði, þyngd og hvernig það virkar sem heild. Þegar um er að ræða listaverk á tvívíðu formi eins og t.d málverk snýst samsetningin um það hvernig ólíkir þættir eru saman settir á fletinum, hvernig formunum er raðað upp, hvernig þessir þættir vinna saman og hvernig áhorfandinn skynjar uppbyggingu myndarinnar (Day, 2013, málsgrein 377).

         

Wong talar um (1993) að byggja upp flöt með línum, t.d með undirstöðu grind, láréttri byggingu eða skásettri byggingu. Línurnar geta verið sýnilegar eða hálf ósýnilegar, en fyrst og fremst aðstoðar grindin eða línurnar við að staðsetja form inn á myndinni. Þær hjálpa við myndbyggingu og auðvelda alla skipulagsvinnu á fletinum. Góð myndbygging ræðst af góðu jafnvægi og því hvernig formum er raðað inn á myndina, hvernig formin raðast saman, hversu mörg form eru inni á myndinni, og hvort þau eru þung eða létt. Ef öll þyngdin er neðst á myndinni myndast jafnvægi, en ef þyngdin er efst myndast spenna. Spegilmynd framkallar einnig jafnvægi, en ef það verður frávik í samhverfunni myndast spenna (Wong, 1993). Hlutföll forma, yfirráð forma, skipulag þeirra og rýmið á milli þeirra skiptir miklu máli þegar kemur að myndbyggingu. Rýmið og bakgrunnurinn eru mikilvæg til að leyfa myndinni að anda og mynda rými milli forma, svo þau séu ekki klesst saman. Fegurðin liggur því einnig í rýminu á milli hlutanna.

          

Margir frægir listamenn eins og Leonardo da Vinci eiga að hafa notast við eina frægustu formúlu allra tíma fyrir myndbyggingu, hið svokallaða gullinsnið. Pýþagóras á að hafa uppgvötað gullinsniðið og Forn-Grikkir eiga einnig að hafa notað það í byggingum sínum. Hlutfall gullinsniðs er 1 á móti 1,618 (Ching, 2007, bls. 302). Gullinsnið hefur verið vinsælt í myndbyggingu í aldanna rás og er enn notað og þykir vera afar fallegt. Uppbygging húsa og myndflatar er í raun ekki svo ósvipað. Hvoru tveggja byggir á hlutföllum og jafnvægi, Þegar okkur finnst óþægilegt að horfa á eitthvað, þá er það oft vegna þess að uppbyggingin er slæm og okkur líður eins og ekkert sitji rétt.

Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir 

Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir 

Gullinsnið.

​

Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir 

​

Gullinsnið: http://goldenmeancalipers.com/2011/07/handy-free-                 golden-mean-tool/

bottom of page