Grunnur til þess að skapa
Námsefni í listgreinum á framhaldsskólastigi
Skynjun
Skynjun er þegar líkami okkar miðlar upplýsingum um ástand innan og utan líkama og hefur líkaminn fimm skilningarvit, sjón, heyrn, snertingu, bragð og lykt (Heiða María Sigurðardóttir, 2005). Flestir geta verið sammála um að sjónin sé mikilvægasta skynfærið, við skynjum svo margt í gegnum sjónina, njótum fegurðar og lesum fróðleik. Með sjóninni getum við greint liti, dýpt, stærð og hreyfingu, en þar gegna svokallaðar keilur sem eru ljósnemar og stafir sem eru mikilvægir fyrir rökkursjón og hreyfingu lykilhlutverki. Heyrnarskynið er engu að síður mikilvægt, heyrnin er okkur mikilvæg upp á öll tjáskipti og meðvitund á umhverfinu. Snertiskynið virkar þannig að húðin nemur mismunandi þrýsting með snertinemum sem svara mismunandi áreiti. Bragðskyn og lyktarskyn er einnig oft nefnt efnaskyn þar sem fólk finnur bragð og lykt af ákveðnum efnum (Heiða María Sigurðardóttir, 2005).
Skynfærin þurfa örvun til þess að þroskast, samkvæmt Eisner (2002, málsgrein 90-91) örvum við skynfæri okkar með menningu og listum. Tungumál, sjónlistir og vísindi örva skynfæri okkar á hverjum degi, við lærum að skapa okkur sjálf með hjálp menningar og lista. Þekking okkar á veröldinni byggist að mörgu leyti á skynjun okkar, heimspekingurinn Rene Descartes vildi meina að allt sem hann þekkti í þessum heimi hafi honum áskotnast í gegnum skynfærin. Hann fór þó að efast og spurði sjálfan sig að því hvernig hann geti í raun verið viss um tilvist vitneskju sinnar og hvort hann gæti fyllilega treyst á skynfærin, hann vildi meina að hann gæti hvenar sem er verið að dreyma eða skynfæri hans gætu verið að blekkja hann (Descartes). Atli Harðarson svarar spurningunni „Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur?“ á Vísindavefnum. Telur Atli (2000) að einhverskonar þekkingar sé þörf til að meta það áreiti sem skynfærin bera okkur. Hann vill meina að til að öðlast þekkingu þurfi að skynja staðreindir og til að skynja staðreindir þurfi að hafa þekkingu og eina leiðin út úr þeim vítahring sé að gera ráð fyrir meðfæddum hæfileikum og vitneskju til að skynja og túlka það sem við upplifum.
Finnbogi Pétursson er íslenskur samtímalistamaður sem vinnur mikið með hugtakið skynjun. Hann vinnur með rafhljóð til þess að skapa innsetningar og skúlptúra, og talar um að hann teikni myndir með skynfærum okkar með því að teikna skúlptúr í loftið með hljóðum. Það er því undir áhorfandanum komið að skynja verkið með því að hlusta á hljóðbylgjur og sjá fyrir sér verkið sem birtist þá sem ímynduð hljóðteikning í rýminu (Finnbogi Pétursson, 1997, bls.38-39).
Það er mikilvægt að vera í góðu sambandi við innsæi sitt og skynjun þegar leggja á fyrir sig listgreinar. Það er mikilvægt að stoppa og virða fyrir sér nærumhverfið, finna hvernig umhverfið lætur okkur líða og hvað umhverfið er að segja við okkur. Iðnhönnuðurinn Jinsop Lee talaði um mikilvægi skynfæranna í Ted fyrilestri árið 2013. Þar talar hann um að sterkasta reynslan í lífi einstaklingsins hafi tilhneigingu til að örva öll skilningarvitin fimm. Hann vill meina að bestu upplifanir okkar verði þegar öll skilningarvitin séu á fullri ferð og gera ætti meira af því að tengja fleiri örvanir fyrir skilningarvitin í eina og sama hlutinn (Lee, 2013).
Listamenn og hönnuðir vinna mikið með mismunandi efni, ákveðin efni kalla fram mismunandi upplifanir og skynjun, hvert efni hefur sinn eiginleika sem nauðsynlegt er að þekkja ef vinna á með efnið. Af eigin reynslu tel ég mikilvægt að nemendur fái að vinna með hrátt efni, þar sem þeir geta gert ýmsar tilraunir, skissur og lært að þekkja eiginleika efna. Þessvegna legg ég töluvert upp úr því að nemendur vinni með efni á þrívíðu formi í verkefnunum sem ég hanna.


Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir
Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir