top of page

Sköpun

Hömluleysi, óvissa og sjálfsöryggi eru mikilvæg einkenni hins skapandi ferlis og góð listfræðsla hvetur nemendur til að taka áhættur og leyfir mistök (Bamford, 2011, bls. 98-99). Í Aðalnámskrá framhaldsskóla er sköpun lýst á eftirfarandi hátt.

 

Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Að skapa er að fara út fyrir mengi hins þekkta og þar með auka þekkingu sína og leikni .Þótt sköpun í almennum skilningi sé vissulega nátengd listum og listnámi er sköpun sem grunnþáttur ekki bundin við listgreinar fremur en aðrar námsgreinar og námssvið . Sköpun sem grunnþáttur skal stuðla að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 22).

 

Gagnrýnin hugsun er lykilþáttur í sköpun, skapandi hugsun fjallar ekki einungis um að skapa eitthvað nýtt og frumlegt heldur einnig um hagnýtingu, hún snýst um að finna lausnir og leita að nýjum möguleikum  (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls 22). Hún byggir á því að nemendur geti tekið sjálfir af skarið og haft um það að segja hvernig þeir leysa verkefni sem er einmitt eitt af einkennum fyrir skapandi skólastarf (Ingibjörg Jóhannsdóttir og fl, 2012, bls. 7).

            

Skapandi hugsun felst í því að geta hugsað út fyrir kassann og leitað nýrra leiða, skapandi hugsun býr til eitthvað nýtt og frumlegt. Gréta Mjöll Bjarnadóttir (1995) talar um að eðli lista sé uppreisn og sá sem sé skapandi komi fram með nýjar hugmyndir sem annað hvort séu viðbót við hið ríkjandi eða uppreisn gegn því.    

          

Robinson segir að sköpun byggist á þrem hugtökum, fyrst er að nefna ímyndunaraflið þar sem hugmyndir fæðast, síðan er það sköpunargáfan sem byggir á getunni til að þróa hugmyndina áfram og loks sé það nýsköpun, sem felur í sér að koma nýjum hugmyndum í framkvæmd. Robinson talar einnig um að oft haldi fólk að annaðhvort fæðist manneskja skapandi eða ekki, alveg eins og hún fæðist með blá eða brún augu. Hann telur hins vegar að það sé vel hægt að kenna fólki að vera skapandi alveg eins og það sé hægt að kenna því að lesa. (Robinson, 2001, bls. 15)

Myndir / Bylgja Lind Pétursdóttir 

bottom of page