Grunnur til þess að skapa
Námsefni í listgreinum á framhaldsskólastigi
Formfræði
Allt í kringum okkur hefur einhverskonar form, punktur hefur form og bók hefur form. Form geta verið í öllum stærðum og gerðum, regluleg form, lífræn form, tvívíð form, þrívíð form eða negatív form sem umlykja önnur form (Wong, 1993). Punktur, lína og flötur eru til dæmis allt form í mismunandi gerðum. Í bókinni Principles of Form and Design eftir Wucius Wong sem kom út 1993 fjallar höfundurinn um hönnun og formfræði. Wong (1993) skiptir formum niður í fjóra flokka: Huglæg form sem ekki eru sýnileg, og aðeins til í ímyndun okkar. Sjáanleg form sem við getum séð og hafa lögun og stærð. Tengd form þar sem tvö form tengjast og mynda annað nýtt form og hagnýt form sem mynda hluti og hafa tilgang.
Af eigin reynslu sem listamaður tel ég vera mikilvægt að nemendur í listgreinum læri formfræði til þess að átta sig á uppbyggingu og umhverfinu, til þess að geta lesið sjónrænt í umhverfið, skilið hvernig allt hefur sína lögun og hvernig skyggingar myndast af ólíkum formum. Formfræðin fjallar um allt frá einum punkt yfir í línu, flóknar samsetningar af línum, flötum og formum. Formfræðin fjallar um það sem birtist okkur á tvívíðum fleti einnig það sem fellur undir þrívídd (Wong, 1993).
Munurinn á tvívídd og þrívídd er sá að tvívíddin er flöt eins og málverk til dæmis, en þó getur listamaðurinn málað myndina þannig að hún virðist vera í þrívídd með því að nota fjarvíddar tækni. Þegar línur eru tengdar saman mynda þær þannig tvívíðan flöt, þegar flöturinn hinsvegar fær umfang má kalla það þrívídd (Wong, 1993). Form sem eru þrívíð hafa lengd, vídd og dýpt, form og rými, yfirborð og hreyfanleika. Form í þrívídd getur annað hvort verið í formi massa, tómarúms eða rýmis sem er lokað af (Ching, 2007, bls. 28).
Færa má rök fyrir að tvívíddin sé tímalaus, því til þess að upplifa þrívídd þarf að ferðast um í tíma og rúmi. Það á að vísu eingöngu við um raunverulega þrívídd en ekki þá þrívíddarblekkingu sem listamenn nota oft á tvívíðum myndum með notkun á fjarvíddartækni (Ingimar Ólafsson Waage, 2007, bls. 8).
Á myndfleti reyna listamenn oft að ná fram þrívídd og dýpt í myndir sínar, þar spilar ljós og skuggi mikinn part og einnig að teikna formin rétt í fjarvídd. Fjarvíddin töfrar fram blekkingu fyrir augað og voru það endurreisnarmenn sem uppgvötuðu fjarvíddina (Ingimar Ólafsson Waage, 2007, bls. 11). Fjarvíddin er mikið notuð í teikningu og málverkum og þrívíddartækni er mikið notuð af hönnuðum og arkitektum.

Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir

Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir