Grunnur til þess að skapa
Námsefni í listgreinum á framhaldsskólastigi
Litafræði
Litirnir í kringum okkur gera lífið fallegra og það er erfitt að ímynda sér lífið án litadýrðar. Maðurinn hefur lengi notast við liti til þess að tjá sig í listsköpun, litafræðin er stór partur af vinnu listamanna og hönnuða og því gott að hafa góða þekkingu á litum. Listmálarar verða sem dæmi að þekkja litafræðina til þess að geta blandað þá liti sem þeir vilja nota í myndirnar sínar og til þess að vita hvernig þeir virka og vinna saman. Litir eru til í margvíslegu formi eins og litir sem við sjáum í náttúrunni og umhverfinu eða litir sem eru búnir til með litarefnum.
Á síðari hluta 17. aldar gaf fræðimaðurinn Isaac Newton út röð rannsókna sem fjölluðu um ljós, liti og prisma. Okkar skilningur á litafræði byggist enn á þessum rannsóknum. Rannsóknirnar byggðust meðal annars á því hvernig við skynjum liti, hvernig ljós og litir tengjast og hvernig ljós endurvarpar litum. Newton notaði ljós til þess að ná fram litum, eins og að varpa hvítu ljósi í gegnum prisma og framkalla þannig sömu liti og við sjáum í regnboganum. Rannsóknir og niðurstöður Newtons þóttu miklar tímamótauppgvötvanir, sú merkilega uppgvötun að ljós væri uppruni allra lita ( Mollica, 2013, bls. 8-9).
Þeir litir sem við sjáum eru því í raun endurkast á ljósbylgjum, ef við horfum á bláan bolla þá sjáum við bláa litinn af því að bollinn dregur í sig alla aðra ljósgeisla nema þá bláu, blái liturinn endurvarpast því og liturinn sem við sjáum verður til með sjóninni og í heila okkar, en bollinn sjálfur er í raun litlaus (Itten, 1973, bls. 18). Allir litir sem við sjáum eru búnir til úr svokölluðum frumlitum (e. primary colours), ásamt hvítum og svörtum, frumlitirnir eru þrír : gulur, rauður og blár. Frumlitirnir þrír eru litir sem ekki er hægt að búa til með því að blanda öðrum litum saman og eru allir aðrir litir því afkvæmi þessa þriggja frumlita (Hafdís Ólafsdóttir, e.d.). Ef frumlitunum er blandað saman eins og til dæmis gulum og rauðum þá fæst appelsínugulur, með gulum og bláum búum við til grænan og blár og rauður búa til fjólubláann. Litirnir appelsínugulur, grænn og fjólublár eru því afkvæmi frumlitana og heita annars stigs litablöndum.
Isaak Newton var fyrstur til þess að raða litunum upp í hringform, litahjólið lýsir sér þannig að litunum er raðað í hring, andstæðulitirnir eru á móti hvor öðrum og raðast litirnir eftir því hvernig þeim er blandað. Litahjólið er notað af vísindamönnum og listamönnum út um allan heim og er hugsað til þess að aðstoða við að skilja blöndun lita, hvernig litirnir tengjast og standa á móti hvor öðrum (Hafdís Ólafsdóttir, e.d.). Litafræðin skiptist í marga flokka og kafla, eins og ljós og litir, litahringurinn, litatónar, heitir og kaldir litir, andstæðir litir, RGB litir og CMYK litir. Litafræðin fjallar um allt frá því að útskýra hvernig augað nemur rafsegulrófið svo við sjáum liti, yfir í hvernig maðurinn hefur notað liti í listsköpun og búið þá til í gegnum tíðina, litafræðin kemur því einnig fram í sögulegu samhengi.
Fyrir þúsundum ára uppgvötaði mannskepnan að það væri betra að nota litarefni til þess að miðla upplýsingum og myndum á hella veggi eða tré, heldur en að rispa myndirnar í efniviðinn (Mollica, 2013, bls. 6). Hin allra fyrsta „málning“ sem var notuð var búin til úr kolum eða öðrum jarðefnum sem síðan var blandað saman við dýrafitu, blóð eða vökva úr plöntum sem notað var sem festir. Grikkir og Rómverjar fundu upp á því að nota vax, kvoðu og egg til þess að binda litarefnin (Mollica, 2013, bls. 6-7). Þótt menn væru farnir að prufa sig áfram með bindiefni út í litarefnin til þess að búa til málningu, þýddi það ekki að það væru komir líflegir litir til leiks, í byrjun voru þetta aðeins brún-og grátóna jarðlitir sem fengust úr náttúrunni. Með tímanum fóru menn að prufa sig áfram með mismunandi tegundir af jarðefnum og jurtum og skærari og fjölbreyttari litir fóru að koma fram. Egyptar gátu notað aðferðir til þess að ná fram litum eins og spanskgrænum, realgar appelsínugulum, rauðu litarefni úr möðrum og purpurarauðum og miðaldir færðu okkur svo hinn vinsæla djúpbláa lit (Mollica, 2013, bls. 7). Á 15. öld var byrjað að nota olíu sem bindiefni fyrir litablöndurnar í staðin fyrir egg. Fyrst var þó notast við valhnetu og hörfræolíu sem síðan þróaðist út í þá olíuliti sem við þekkjum í dag. Á 19. öld fóru að koma fram fleiri valmöguleikar í málningu eins og vatnslitir og akríllitir.

Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir

Mynd / Bylgja Lind Pétursdóttir