Grunnur til þess að skapa
Námsefni í listgreinum á framhaldsskólastigi
Hæfniþrep
Aðalnámskrá framhaldsskóla byggir á lykilhæfni sem er ætlað að tengja grunnþættina sex við markmið um hæfni nemenda. Lykilhæfni snýst um nemandann sjálfan og er nemendamiðuð útfærsla á áherslum grunnþátta (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 31). Lykilhæfni og grunnþættir eiga því að fléttast saman og mynda burðarstoð í öllu starfi framhaldsskóla og þegar skipuleggja á námsbraut eða við gerð áfangalýsingu er lykilhæfni notuð sem grind og einnig við skipulagninu á námsmati (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 31). Lykilhæfni felur í sér níu svið og er skapandi hugsun og hagnýt þekking eitt þeirra sviða og felur í sér eftirfarandi lykilhæfni:
Að nemendur sýnir frumkvæði og skapandi hugsun, beri siðferðilega ábyrgð á sköpun og hagnýtingu þekkingar sinnar, geti miðlað hæfni sinni á skapandi hátt, geti nýtt sér sköpunarkraft sinn á margvíslegan hátt í lífi og starfi, geti notið lista, menningar og skapandi starfs á margvíslegu formi, skilji hvernig menning og listir tengjast atvinnusköpun og samfélagsþróun“ (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 33-34).
Námslok námsbrauta í framhaldsskóla raðast eftir fjórum hæfniþrepum, hæfniþrepin mynda ramma um mismunandi kröfur við námslok og skiptir því ekki máli hvort um ræðir bóknám, listnám eða starfsmán, hæfniþrepin eiga að gefa vísbendingu um viðfangsefnið og námskröfur og eru því mikilvæg þegar búa á til áfanga -eða námsbrautarlýsingu (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 41).
Á framhaldsskólastigi er náminu skipt upp í fjögur hæfniþrep, fyrsta þrepið skarast á við grunnskóla og það síðasta skarast við háskólastig. Þrepin fjögur lýsa kröfum um þekkingu, leikni og hæfni nemenda á stigvaxandi hátt. Þekking er safn staðreynda, lögmála, kenninga og aðferða, þekking er bæði fræðileg og hagnýt og eru margar leiðir til að afla þekkingar eins og t.d með því að hlusta, horfa, lesa og ræða saman. En það er ekki er nóg að búa bara yfir þekkingu, heldur þurfa nemendur að geta greint hana og miðlað. Leikni er bæði vitsmunaleg og verkleg, hún felur í sér að að geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun í mismunandi tjáningaformum, leikni er aflað með notkun á aðferðum og þjálfun í verklagi. Hæfni felur í sér yfirsýn og getu til þess að hagnýta þekkingu og leikni, hæfni felur í sér greiningu nemandans á eigin þekkingu og leikni, hæfni til þess að miðla með margvíslegum hætti. Hæfni gerir kröfur um ábyrgðartilfinningu, virðingu, víðsýni, sköpunarmátt og siðferðisvitund (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls 39).
Við námslok á ákveðinni námsbraut er miðað við ákveðin hæfniviðmið og segja þau til um hvaða hæfni, þekkingu og leikni nemandinn á að búa að þegar hann klárar námið. Hver skóli ákveður svo á hvaða þrepi áfangar innan námsbrautanna eru skilgreindir (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 41-42). Kennsluefnið sem ég bý til er ætlað fyrir nemendur frá fyrsta hæfniþrepi til þriðja hæfniþreps og hef ég flokkað verkefnin eftir efni og úrvinnslu og hvað ég telji hæfa hverju þrepi.
Í Aðalnámskrá framhaldsskóla segir að fyrsta hæfniþrepið sé á mörkum grunnskóla og framhaldsskóla, krafa um námsframvindu á fyrsta hæfniþrepi getur verið óhefðbundin og námsmat fyrst og fremst leiðbeinandi. Viðmiðunar listinn um þekkingu, leikni og hæfni er langur en ef ég tek dæmi um nokkur viðmið á hæfniþrepi eitt þá þurfa nemendur að búa yfir fjölbreyttum orðaforða, geta tjáð skoðanir sínar, beitt skapandi hugsun, hafa þekkingu á samfélagslegum gildum, leikni í færa rök fyrir máli, vinna á sjálfstæðan og skapandi hátt og færni í að tjá tilfinningar sínar meðal annars (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 43). Í námsefninu eru fremur einföld verkefni höfð á fyrsta hæfniþrepi, en þau bjóða þó upp á mis krefjandi útfærslur sem gætu hentað hverjum og einum.
Námslok á hæfniþrepi tvö einkennast af fremur stuttri sérhæfingu, námið felur í sér undirbúning undir sérhæfð og lögvarin störf og sérhæft aðfararnám (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 42). Viðmiðunar listinn um þekkingu, leikni og hæfni er einnig langur, en ef ég tek dæmi um nokkur viðmið þá þurfa nemendur að búa yfir fjölbreyttum orðaforða og geta rökstutt skoðanir í tengslum við sérþekkingu, búa yfir þekkingu sem nýtist til undirbúnings fyrir frekara nám, leikni í að tjá sig á skapandi hátt um sérþekkingu eða starfsgrein, skipuleggja einfalt vinnuferli, taka þátt í samræðum um sérþekkingu sína og geti tengt þekkingu sína og leikni við starfsumhverfi og daglegt líf (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 44). Verkefnin í hæfniþrepi tvö í námsefninu eru orðin aðeins meira krefjandi og meira er um að nemendur þurfi að tjá sig um eigin sköpun og færa rök fyrir vinnu sinni.
Námslok af hæfniþrepi þrjú einkennast af enn meiri kröfum um þekkingu, leikni og hæfni, þar fer fram sérhæfður undirbúningur undir háskólanám, lögvarin störf, sérhæft starfsnám og listnám. Nemendur eiga að geta unnið sjálfstætt, borið ábyrgð á skipulagi og úrlausn verkefna og metið eigin störf (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 45). Sem dæmi um nokkur viðmið um þekkingu, leikni og hæfni, þurfa nemendur að búa yfir fjölbreyttum orðaforða til þess að geta tjáð skoðanir sínar í tengslum við sérþekkingu, geta tjáð sig á skýran og skapandi hátt um sérhæfða þekkingu sína, sýna frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð við leit lausna, búa yfir siðferðislegri ábyrgð í skapandi starfi, búa yfir ábyrgð gagnvart starfsumhverfi og búa yfir hæfni til að geta tekist á við frekara nám (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 45). Verkefnin á vefsíðunni á þriðja hæfniþrepi eru krefjandi og sum verkefnin á mörkum framhaldsskóla og háskóla. Eftir flest verkefnin er haldin yfirferð þar sem nemendur þurfa að kynna verkin sín og færa rök fyrir þeim og eiga nemendur að geta tjáð sig á skapandi hátt um sérþekkingu sína.
Fjórða hæfniþrepið felur svo í sér nám sem fer annaðhvort fram í framhalds eða háskóla, námslok af fjórða þrepi felur í sér aukna sérhæfingu, í tengslum við stjórnun, leiðsögn, þróun eða nýsköpun (Mennta-og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 42). Námsefnið og verkefnin sem ég hanna er því ætlað nemendum sem hafa valið sér námsbraut sem sérhæfir sig í skapandi greinum eins og til dæmis myndlistarbraut. Námsefnið gæti verið góður grunnur fyrir áframhaldandi nám í hönnun eða myndlist.